Eins og margoft hefur komið fram þá eru fordæmalausir tímar í heiminum í dag. Heimsbyggðin öll er við það að leggjast í hýði vegna Covid-19 veirunnar sem nú fer um heimsbyggðina og ógnar samfélögum heimsins.
Ljóst er að þetta hefur nú þegar haft heilmikil áhrif á starfsemi stofnanna sem sinna sí- og endurmenntun í landinu. Námskeið hafa fallið niður eða færst yfir á netið og reyndar er áhugavert að fylgjast með hver áhrifin verða til lengri tíma varðandi þróun náms og nýtingu tækni og nets í námi.
Leikn – samtök aðila í fullorðinsfræðslu vilja skora á aðildarfélög sín að huga að því hvað við getum gert til að létta þjóðinni róðurinn í gegnum þennan tíma. Nokkrar símenntunarmiðstöðvar eru nú þegar farnar að skoða að auka námskeiðsframboð á netinu, og þá sérstakelga námskeið sem æltað er að hjálpa fólki í gegnum þennan skafl.
Við í stjórn Leiknar myndum vilja fá að heyra frá ykkur hvað þið eruð að gera, og einnig brýna ykkur til góðra verka og bjóðast til að dreifa efni frá ykkur í gegnum facebook síðu Leiknar.
Við eigum fulltrúa í samráðshópi Mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna Covid-19 ásamt fulltrúum Kvasis og okkur þætti gott að geta komið með innlegg á þá fundi sem gætu verið mótvægi við þá varnarbaráttu sem er annarstaðar í menntakerfinu.
Gott væri að fá frá ykkur stutt yfirlit yfir hvað þið eruð að gera eða hyggist gera og senda á helgis@simey.is.
Stjórn Leiknar.